Færsluflokkur: Bloggar
Samtök um Betri spítala á betri stað hafa unnið að því vikum saman að finna skýrslu frá 2008 sem átti að staðfesta að Hringbraut væri besti staðurinn undir nýjan Landspítala. Ráðamenn, hvort sem eru ráðherrar, borgarstjóri eða aðrir hafa vitnað til skýrslunnar og sagt hana taka af allan vafa um að Hringbraut sé besti kosturinn.
Enginn hefur þó fengið að sjá skýrsluna fyrr en nú. Baráttan skilaði loks árangri þegar Velferðarráðuneytið samþykkti loks að láta skýrsluna af hendi. Hún er nú í fyrsta sinn birt opinberlega eftir að hafa legið í leynd í 7 ár í skjalahirslum ráðuneytisins. Þú getur lesið hana í heild sinni á FB síðu samtaka um Betri spítala á betri stað.
Það sem kemur mest á óvart er hvað skýrslan er lítilfjörleg, aðeins rúmar 4 bls. auka tveggja umferðarkorta) og rökstuðningur við niðurstöður veigalítill, oftar en ekki enginn rökstuðningur. Í raun er hún eins og léleg ritgerð úr grunnskóla.
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að um verður að ræða stærstu opinberu framkvæmd Íslandssögunnar sem mun kosta yfir 100 milljarða króna.
Bloggar | Laugardagur, 23. maí 2015 (breytt kl. 08:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ertu góður gúgglari?
Samtök um betri spítala á betri stað leita að týndri skýrslu / greinargerð.
Á ársfundi Landspítala vitnaði Kristján Þór Júlíusson ráðherra í greinargerð frá 2008 sem á að innihalda endurmat á staðarvali fyrir nýjan Landspítala.
Leitað hefur verið dyrum og dyngjum að greinargerðinni um allt internetið án árangurs. Á fésbókarsíðu samtakanna er leitinni haldið áfram. Þar er að finna ræðu ráðherra og tilvitnun í greinargerðina / skýrsluna.
Smelltu og hjálpaðu til við leitina.
Bloggar | Mánudagur, 11. maí 2015 (breytt kl. 23:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samtök um Betri spítala á betri stað hafa opnað Facebook síðu með það að markmiði að halda úti málefnalegri umræðu um staðsetningu nýs Landspítala.
Hópur áhugamanna um betri staðsetningu nýs Landspítala hefur borið Hringbraut saman við aðra staðsetningu nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins. Niðurstaðan er að ríflega 7 milljarðar króna sparast árlega ef nýr spítali rís á „besta stað” sem næst búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins. Það gerir um 130 milljarða króna á núvirði m.v. 5% vexti og endingartíma spítalans í 40 ár.
Það er ýmislegt leggjandi á sig fyrir 130 milljarða.
Skattgreiðendur eiga kröfu á að vel sé farið með peninga og að ávalt sé lagt faglegt mat á alla framkvæmdir og besti kostur valinn. Allt of mörg dæmi er um hið gagnstæða og að ekki er hlustað á fagaðila og leikmenn sem færa rök fyrir máli sínu.
Ef faglega er staðið að staðarvali fyrir nýjan Landspítala væri hægt að byggja betri spítala og hraðar fyrir minni pening og spara árlega mikið í rekstrarkostnaði.
Um þetta m.a. má lesa á Facebook síðu Samtaka um Betri spítala á betri stað.
Bloggar | Miðvikudagur, 29. apríl 2015 (breytt kl. 00:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Samtök um Betri spítala á betri stað hafa opnað Facebook síðu með það að markmiði að halda úti málefnalegri umræðu um staðsetningu nýs Landspítala.
Þar kemur eftirfarandi m.a. fram:
Forsendur árið 2002 fyrir að velja Hringbraut fyrir nýjan Landspítala voru afar veikar. Þær forsendur hafa elst mjög illa, ekki síst vegna mikils uppgangs í ferðaþjónustu. Miðborgin þolir einfaldlega ekki að stærsti vinnustaður landsins - með næstum 5000 starfsmönnum - verði holað niður í Þingholtin.
Afar mikilvægt er að staðsetningin verði endurskoðuð með opnum huga. Gera þarf nýtt staðarmat og beita til þess faglegum aðferðum. Aðeins með því verður tekin rétt ákvörðun um staðsetninguna.
Gerð nýs vandaðs staðarvals, sem meðal annars styðst við ítarlega umferðargreiningu, þarf ekki að taka mikið lengri tíma en 6 mánuði en heildstæð umferðargreining fór aldrei fram þegar upphafleg ákvörðun var tekin.
Bloggar | Mánudagur, 27. apríl 2015 (breytt kl. 22:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýr LSH við Hringbraut stefnir í sama farveg og Landeyjarhöfn og Vaðlaheiðargöng svo nefnd séu tvö dæmi úr Íslandssögunni um góð áform sem fara úr böndunum. Ástæðan er ekki nægjanlega faglegur undirbúningur og skynsemisraddir hunsaðar.
Böðlast áfram eins og naut í flagi.
Leiðin til glötunar vörðuð góðum áformum
Verkefnin þrjú eiga eitt sammerkt og það er að væntur ávinningur verkefnanna nýtur stuðnings stórs hluta þjóðarinnar. Flestir eru sammála um þörf á nýju sjúkrahúsi sem bætir aðstöðu sjúklinga og starfsmanna, flestir vilja að Eyjamenn fái betri samgöngur sem geti m.a. eflt ferðaþjónustu í Eyjum og Vaðlaheiðargöng eru mikilvæg til að stækka atvinnusvæðið og efla ferðaþjónustu.
Góð áform eru hinsvegar ekki nægjanleg ef undirbúningur er slakur.
Staðsetning nýs LSH við Hringbraut glapræði
Sterk rök mæla gegn staðsetningu nýs LSH við Hringbraut og hafa hundruðir fagmanna og leikmanna varað við og sett fram sterk rök gegn staðsetningu við Hringbraut og sterk rök með staðsetningu á auðri lóð sem næst búsetumiðju höfuðborgarsvæðsins.
En áfram skal tuddast og skýr skilaboð voru send í gegnum Morgunblaðið frá ÞEIM SEM VALDIÐ HAFA til þeirra sem enn þrjóskast við og halda áfram á benda á nakinn keisarann.
Í Morgunblaðinu 24.apríl 2015, bls. 18, segir;
"Ljóst er að ekki verður hvikað frá þeirri ákvörðun að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut."
"Vatnsleka" og "Stútfull af sandi" fréttir í undirbúningi
Í Morgunblaðsgreininni segir að jarðvinna við sjúkrahótelið hefjist brátt og strax má lesa vísbendingar um að viðvaranir hafi átt við rök að styðjast.
Í fréttinni segir;
"...framkvæmdirnar krefjast aðgæslu því þær eru í byggð..."
"...líkt og fylgir öllum byggingarframkvæmdum má búast við sprengingum..."
Mjög margir hafa varað við miklum viðbótarkostnaði og ekki síður óþægindum við framkvæmdir á þessum stað vegna þröngrar aðstöðu, nálægðar við gamla byggð og fjarlægðar sem þarf að aka hundruðum vörubílshlassa til og frá miðborginni. Einnig verða umferðartafir vegna framkvæmdanna, sem munu standa í mörg ár, gríðarlegar.
Enn er hægt að skipta um staðsetningu því framkvæmdir eru ekki hafnar.
Betri spítali á betri stað
Spara má milljarða á ári og allt fyrrgreint má losna við ef valin er auð lóð til byggingar eins og margsinnis hefur verið bent á. Ef byggt er á auðri lóð á besta stað sem næst búsetumiðju höfuðborgarsvæðsins þá
- Verður spítalinn bæði ódýrari í byggingu og rekstri
- Batna samgöngur, dregur úr umferðartöfum og mengun
- Laðast starfsfólk að framúrskarandi starfsumhverfi
- Batnar aðgengi, aðstaða, batahorfur og þjónusta við sjúklinga
- Eflast rannsóknir og menntun
- Verður til betri spítali til lengri framtíðar
Bloggar | Laugardagur, 25. apríl 2015 (breytt kl. 09:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Röng staðsetning nýs spítala við Hringbraut þýðir gríðarlega aukið umferðarálag á götum í kringum spítalann skv. rannsókn Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Borgin stefnir að því að leysa þetta heimatilbúna vandamál með jarðgöngum undir Öskjuhlíð og með því að grafa stokk í Miklubraut. Samtals munu þessar framkvæmdir kosta tugi milljarða króna af skattpeningum sem nýtast betur til tækjakaupa fyrir landspítalann.
Í viðtali í Morgunblaðinu í júní 2007 segir Dagur B. Eggertsson að kostnaður gæti numið allt að 12 milljörðum króna (á verðlagi dagsins í dag væri líklegt að talan nálgaðist 25-30 milljarða);
HEILDARKOSTNAÐUR við mislæg gatnamót og stokkalausnir Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar getur numið allt að tólf milljörðum króna, segir Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Þessar umfangsmiklu milljarða framkvæmdir, sem eru óþarfar ef spítalanum væri valinn betri staður við búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins, eru staðfestar í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá 2013. Vegna gríðarlegs kostnaðar og vandkvæða við framkvæmd er óvissa um verktíma eins og segir í skjalinu
"Óvissa er um tímasetningu framkvæmda við Öskjuhlíðargöng og/eða byggingu stokks á Miklubraut."
Mikið vandamál er að grafa göngin nánast í miðri borg og ekki síður ákveða hvar gangamunnarnir eiga að vera og allar vegslaufurnar sem þarf að þeim og frá enda segir textinn í aðalskipulaginu;
"Ekki er ákveðið hvar göng liggja í Öskjuhlíð"
Niðurstaðan er sú að búið er að ákveða (ákvörðun sem enn er hægt að breyta) að flytja næstum 5000 manna vinnustað og eina stærstu þjónustustofnun landsins alfarið í miðborgina sem mun auka umferðaröngþveiti. Á sama tíma er vitað að lausnirnar á umferðaröngþveitinu koma ekki til framkvæmda næstu árin (jafnvel áratugi) og munu kosta milljarða þegar og ef af þeim verður.
Afleiðingarnar verða geigvænlegar fyrir íbúa á svæðinu, starfsmenn og sjúklinga sem munu sitja fastir í umferðarteppum árum saman meðan þeir bíða eftir lausnum sem vitað var frá upphafi að ekki var hægt að útfæra svo vel færi.
Þetta minnir á loforðin gagnvart íbúum bryggjuhverfis og íbúum Úlfarsárdals. Allir vita hvernig þau mál standa í dag, áratugum síðar og skv. íbúafundi með borgarstjóra í vikunni eru íbúar við það að gefast upp.
Bloggar | Laugardagur, 18. apríl 2015 (breytt 19.4.2015 kl. 11:09) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Er kostnaður við byggingu nýs landspítala við Hringbraut vanáætlaður? Er ódýrara að byggja allt nýtt frá grunni, t.d. við Elliðaárvog, þar sem rúmt er um og því auðvelt að byggja heldur en að byggja í þrengslunum í Þingholtunum?
Er ástæða til að endurskoða kostnaðaráætlanir við nýjan landspítala um leið og ný staðsetning er skoðuð? Núverandi áætlun gerir m.a. ráð fyrir byggingu bílageymsla upp á 16.987 fermetra fyrir 1,8 milljarða króna á verðlagi í dag. Er hægt að spara t.d. í byggingu bílageymsla ef byggt er við Elliðaárvog, í nálægð við 73,5% íbúa sem geta þá frekar hjólað, gengið eða tekið strætó í vinnuna?
Í þessu samhengi er rétt að benda á að ef LSH endar við Hringbraut mun umferð aukast um 2000 bíla á sólarhring sem væri í andstöðu við samgöngumarkmið Reykjavíkurborgar en umferð minnkar ef Elliðaárvogur er valinn.
Væri hægt að spara með því að byggja meira á hæðina eins og hægt væri við Elliðaárvog í stað þess að fletja út yfir stórt svæði eins og ætlunin er við Hringbraut? Hver fermetri verður ódýrari ef byggt er upp og vinnuaðstæður verða betri fyrir starfsmenn sem geta farið á milli deilda í lyftum í stað þess að ganga marga km. á dag.
Ég hef verið að rýna kostnaðartölur frá Noregi og bera saman við kostnaðaráætlun LSH við Hringbraut og umbreyta í kostnað per fermetra. Það truflar mig verulega hve mikill munur er á milli þessara verkefna.
Ég vil þó taka fram að ég hef ekki mikil gögn til að styðjast við heldur aðeins heildartölur og fermetrastærð umræddra verkefna af netinu. Því gæti mér skjátlast en tel þó rétt að benda á þetta.
Erlendir ráðgjafar LSH (sjá hér http://www.nyrlandspitali.is/.../nuh-h001_p_00_99_14-06... vísa í tvo norsk verkefni og segja þau góð til samanburðar.
Norsku verkefnin tvö sem vísað er í eru St. Olav´s Hospital og Akershus hospital og niðurstöður þeirra ásamt LSH eru:
- St. Olav´s hospital um ÍSK 1.480.000 per fermetra.
- Akershus hospital um ÍSK 1.319.000 per fermetra
- LSH við Hringbraut um ÍSK 773.000 per fermetra
Með einföldum úreikningi á ST. Olav´s verkefninu (sjá hér http://www.byggeweb.dk/.../project.../st._olavs_hospital/) þá kostar það skv. þessum vef EUR 2 milljarða eða um 296 milljarða ÍSK. Heildar fermetrafjöldi er 200.000 og því kostnaður per fermeter um 1.480.000.
Ef skoðað er Akershus spítalaverkefnið (sjá hér http://ec.europa.eu/.../CS_SR07_Construction_1-Akershus.pdf) þá lauk því árið 2008 og kostnaður EUR 900 milljónir sem er um 133,2 milljarðar. Það er fyrir 7 árum og ef verðbólga er áætluð 2% á ári þá er talan nær 153 milljörðum. Heildarfj. fermetra nýrra bygginga er 116 þús. og lagfæringar á eldri byggingum 20 þús. fermetrar. Ef við leggjum þetta saman og deilum upp í kostnaðinn þá erum við að tala um 1.125.000 per fermeter. Ef við leggjum þessar tölur ekki saman heldur notum eingöngu nýbyggða fermetra þá er fermetraverð 1.319.000.
Skv. frumvarpi Alþingis þar sem er að finna kostnaðaráætlun LSH við Hringbraut er byggingar- og fjármagnskostnaður FYRSTA ÁFANGA á verðlagi í okt. 2012 69,3 milljarðar. Uppreiknað til verðlags í dag er talan um 72,7 milljarðar. Fjöldi fermetra 94.036 og fermetraverð því um 773.000 (meira hér um kostnaðaráætlun http://nyrlandspitali.is/.../2012-12-11-samradsthing...). Deiliskipulagið frá 21.3.2013 heimilar í heild 240.819 fermetra af byggingum og þar af er núverandi byggð 73.610 fermetrar. Því má bæta við núverandi byggð um 170.000 fermetrum.
Niðurstaðan er að skv. áætlun LSH virðist kostnaður per fermetra vera mun lægri en raunkostnaður þessara norsku verkefna. Er það raunhæft eða er áætlun LSH of lág?
Bloggar | Miðvikudagur, 8. apríl 2015 (breytt kl. 01:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Skv. greinargerð frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar frá des. 2011 er reiknað með að umferð, eingöngu vegna fyrsta áfanga LSH á Hringbraut, aukist um 2000 bíla á sólarhring (um 4000 bíla að og frá). Fyrsti áfangi er um helmingur af endanlegu byggingarmagni. Umferð mun því aukast enn frekar þegar allir áfangar eru klárir.
Í skýrslunni segir m.a.
Fyrsti áfanginn mun leiða af sér aukna umferð sem nemur um 2000 bílferðum á sólarhring, þ.e. 4000 bílar á sólarhring að og frá um þær götur sem að spítalanum liggja.
Þetta er óþarfi og í andstöðu við samgöngumarkmið Reykjavíkurborgar. Með því að velja stað sem væri nær búsetu 70% íbúa borgarinnar t.d. í Elliðaárvogi (sjá annan bloggpistil um búsetu m.v. Hringbraut og Elliðaárvog) væri hægt að DRAGA ÚR umferðinni því 1) mun færri þyrftu að fara úr austurborginni og í vesturborgina, 2) styttra yrði að fara fyrir langflesta (yfir 70%) og 3) þeir sem byggju í vesturborginni og færu í austur færu á móti umferðinni.
Þessi leið myndi:
- fjölga hjólandi
- fjölga gangandi
- stytta ferðatíma keyrandi og þeirra sem taka strætó
Niðurstaðan:
Besta staðsetningin er miðsvæðis m.v. búsetu sem dregur úr álagstoppum sem eru verulegir á morgnanna skv. skýrslunni, eykur lífsgæði, dregur úr CO2 losun, dregur úr sliti gatna og dregur úr svifryksmengun svo fátt eitt sé nefnt.
Hvers vegna var Elliðaárvogur aldrei skoðaður sem kostur þó bent hafi verið á hann í mjög mörg ár? Ég hefði haldið að hann væri nokkuð augljós kostur - þó ekki væri nema að gera umferðargreiningu á þeim kosti m.v. Hringbraut. Er möguleiki að þeir sem halda stíft í Hringbraut gætu verið haldnir Vatnsmýrarvillunni?
Bloggar | Mánudagur, 6. apríl 2015 (breytt kl. 11:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Staðarval nýs landspítala (nýr LSH) við Hringbraut er byggt á skýrslu frá 2002 og hefur aldrei verið endurskoðað. Samgöngumarkmið Reykjavíkurborgar miða að því að draga úr bílaumferð og auka umferð hjólandi og gangandi og þeirra sem nota almenningssamgöngur.
Góð markmið en staðarval við Hringbraut vinnur gegn þessum markmiðum. Staðarval við Elliðaárvog vinnur með þessum markmiðum.
Í skýrslunni frá 2002 segir á bls. 12 að eftir 20 ár muni um 500-550 sjúklingar liggja á spítalanum (rúmin eru skv. vef LSH 674 í dag en reiknað er að þeim fækki og flytjist á sjúkrahótel og/eða með aukinni göngudeildarstarfsemi). Einnig segir í skýrslunni að heimsóknir muni verða um 400 - 500 þús. á ári, fjöldi fastra starfsmanna verði um 4.000 (stöðugildi eru í dag 3752 en fjöldi starfsmanna eru í dag 4.875 skv. fyrrgreindum vef). Þá eru ótaldir gestir sem koma til að heimsækja sjúklinga.
Þrátt fyrir þessa tölfræði sem var þekkt á árinu 2002 og í ljósi talna í dag var vanmetin þá var aldrei skoðuð betri staðsetning sem er mun nær íbúum höfuðborgarsvæðsins - Elliðaárvogur.
- 53,600 manns búa í dag í póstnúmerum 101,103,105,107 ásamt 170 og 50% af 108.
- 201,890 manns búa í dag í póstnúmerum 104, 50% af 108,109,110,111,112,113,116, 150 ásamt 200, 201, 203,210,220,221,225 og 270.
Skv. þessu búa 73,5% nær Elliðaárvogi og 26,5% nær Hringbraut. Ef tillit væri tekið til suðurnesja, Akraness, Borgarness, Hveragerðis, Selfoss, Stokkseyri og Eyrarbakka þá hækkar hlutfallið auðvitað enn frekar Elliðaárvogi í vil - líklega 80% nær Elliðaárvogi.
Með vali á Elliðaárvogi þá gætu fleiri hjólað og fleiri gengið í vinnuna á þessum risastóra vinnustað (4.875 manns). Einnig væri ferðalag þeirra sem tæki strætó eða færi á bíl mun styttra og umhverfisvænna fyrir vikið. Því má því færa rök fyrir því að CO2 losun aukist með vali á Hringbraut, slit gatna eykst og þar með svifryksmengun og lífsgæði minnka þar sem fleiri þurfa að dvelja lengur í bílum eða almenningsvögnum.
Þróun búsetu til austurs mun aukast enn frekar í framtíðinni þar sem ferðaþjónustan mun hækka íbúðaverð í miðborginni þannig að mestur hluti starfsmanna LSH mun ekki hafa efni á að búa í miðbænum.
Í öðrum pistli kallaði ég það Vatnsmýrarvilluna hversu fastir menn eru í upphaflega staðarvalinu.
Bloggar | Sunnudagur, 5. apríl 2015 (breytt 6.4.2015 kl. 10:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég lagðist í rannsóknarvinnu og las mér til um verkefnið Nýr Landspítali á vef þess. Niðurstaðan: Ákvörðun um Hringbraut er tekin 2002, á veikum forsendum og aldrei endurskoðuð.
Ég tek undir spádóma að í framtíðinni, ef byggt verður á Hringbraut, verði bygging LSH við Hringbraut skólabókardæmi um svokallaða "sunk cost fallacy" villu og verður kölluð Vatnsmýrarvillan (sjá nánar neðar).
Forsenda: Allar skýrslur sem unnar hafa verið um verkefnið séu á vef þess.
Svo virðist sem ákvörðun um staðarvalið þ.e. Hringbraut hafi verið tekin strax árið 2002 eftir mat á aðeins þremur kostum þ.e. Hringbraut, Fossvogur og Vífilstaðir í skýrslu erlendra ráðgjafa. Þeir meta bara kosti og galla en taka ekki ákvörðun.
Skv. skýrslunni er ákvörðun sérstakrar nefndar um að velja Hringbraut tekin árið 2002 og byggt á forsendum sem eru mjög veikar. Í megindráttum tvær forsendur en um forsendur má lesa á bls. 15 í skýrslunni;
1) nálægð við HÍ og
2) styrking miðborgar.
Ekkert virðist hafa verið tekið tillit til búsetu á höfuðborgarsvæðinu og búsetu starfsmanna, ferðatíma til og frá Hringbraut m.v. aðra kosti, o.s.frv. Þó má lesa úr mati ráðgjafa á fyrrgreindum þremur kostum að Fossvogur væri bestur þegar kemur að staðsetningu miðað við búsetu sbr. mat á kostum á bls. 19 - 25. Ekkert tillit er tekið til þeirrar ráðgjafar. Í dag búa yfir 70% íbúa og yfir 70% af 5000 starfsmönnum LSH austan póstnúmers 104 með Mosfellsbæ auk Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Hringbraut er í þessu ljósi í andstöðu við samgöngumarkmið Reykjavíkurborgar.
Að mínu viti kemur Fossvogur best út úr þessu mati erlendu ráðgjafanna. Valnefndin velur hinsvegar Hringbraut eins og áður segir. Ekkert mat er lagt á aðra kosti eins og Elliðaárvog, Keldnaholt eða Sogamýri sem eru jafnvel betri kostir en Fossvogur.
Ég hvet alla til að lesa skýrsluna og sérstaklega þessar bls. sem ég vitna í. Aldrei virðist staðarvalið hafa verið endurmetið síðan 2002 en hér er listi á vef verkefnisins yfir allar skýrslur sem gerðar hafa verið.
Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna haldið er áfram með svo galið staðarval eins og raun ber vitni. Í morgun sá ég á bloggi hjá Ágústi H. Bjarnasyni ágætis skýringu á því og sem þar er kallað Vatnsmýrarvillan en um það má lesa hér.
Þar kemur m.a. þetta fram:
"...The term ... has been used to describe the phenomenon where people justify increased investment in a decision, based on the cumulative prior investment, despite new evidence suggesting that the cost, starting today, of continuing the decision outweighs the expected benefit. Such investment may include money, time, or even — in the case of military strategy — human lives. The phenomenon and the sentiment underlying it are reflected in such proverbial images as "Throwing good money after bad", "In for a dime, in for a dollar", or "In for a penny, in for a pound". The term is also used to describe poor decision-making in business, politics, and gambling."
Bloggar | Föstudagur, 3. apríl 2015 (breytt kl. 11:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vangaveltur Egils
Eldri færslur
2015
2012
2011
2010
2009
2008
2007
2006
Síður
- Lýðræðislegar umbætur á íslenska lýðveldinu
- Andsvar Brimborgar til borgarráðs 5. janúar 2009
- Erindi til Alþingis um etanól bíla - mars 2007
- Erindi til Alþingis um etanól bíla - Nóv. 2006
- Stöðugleikastýrikerfi í bílum bjargar mörgum mannslífum
- 3. Spurningar um menntamál
- 2. Spurningar um umhverfismál
- 1. Spurningar um samgöngu- og umferðaröryggismál
- Björt framtíð bílgreinarinnar og samfélagsleg ábyrgð
- Neytendur eru skynsamir
- [ Fleiri fastar síður ]
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar