Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
Í den, kannski enn, voru vinsælir brandarar um hámark bjartsýninnar en líklega höfum við Frosti slegið heimsmetið í bjartsýni. Þátturinn okkar Frosta, ESB - nei eða já? er á dagskrá á sama tíma og leikur íslands við Frakka stendur yfir.
Kannski er það understatment of the year að segja að það verði krefjandi verkefni að laða að hlustendur að útvarpsþætti um ESB á sama tíma og Íslendingar keppa við fyrrum heimsmeistara Frakka um réttinn til að leika um gullið.
The show must go on og þátturinn byrjar á Útvarpi Sögu kl. 12:45 og gestir verða Styrmir Gunnarsson og Jón Baldvin Hannibalsson.
![]() |
Andinn er einstakur í liðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Laugardagur, 30. janúar 2010 (breytt kl. 11:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það var mikil ánægja að fá Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, til að koma í Brimborg og afhenda 10 Ford Focus vetnisrafbíla til nýrra notenda. Bílarnir eru hluti af stóru verkefni sem Íslensk Nýorka stendur að ásamt Brimborg um prófanir á þessari nýju tækni við erfiðar, íslenskar aðstæður.
Athöfnin gekk vel og hófst kl. 14 þar sem ég hélt stutta ræðu, Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku hélt síðan tölu. Þar staðfesti Jón Björn að fyrirtækið hefði fengið góðan styrk frá ESB til að vinna að enn frekari rannsóknum.
Katrín tók síðan við og upplýsti að ráðuneyti hennar ynni nú að orkuskiptiáætlun þar sem lögð væri áhersla á notkun hreinnar, innlendrar og endurnýjanlegrar orku í samgöngum en lagði jafnframt áherslu á að markaðurinn yrði að sjá um að velja hagkvæmustu tæknina. Rétt mat hjá ráðherranum.
Síðan afhenti ráðherra lyklana til ánægðra notenda og tók síðan góðan rúnt á einum Ford vetnisrafbílnum. Með ráðherranum í bíltúrnum var fulltrúi bandaríska sendiráðsins sem er einstaklega ánægður með framtakið en þess má geta að bílarnir koma einmitt beint til Íslands úr verkefni á vegum Department of Energy (DOE).
Hér fyrir neðan er svo ræðan sem ég hélt af þessu tilefni.
Mig langar að byrja á því að bjóða hæstvirtan ráðherra, Katrínu Júlíusdóttur og aðra gesti velkomna.
Ég heiti Egill Jóhannsson og er forstjóri Brimborgar. Það er með mikilli gleði sem við, starfsfólk Brimborgar, tökum á móti ykkur hér í dag. Fyrir okkar hönd vil ég segja nokkur orð áður en ég gef Jóni Birni frá Íslenskri Nýorku og hæstvirtum ráðherra sem mun afhenda bílana, orðið.
Það er rétt um mánuður síðan Ford Focus vetnisrafbílarnir komu til landsins. Þeir hafa hlotið verðskuldaða athygli langt út fyrir landsteinana enda eru það stór tíðindi að stærsti vetnisrafbílafloti Evrópu sé staðsettur á Íslandi.
Stór tíðindi komu einnig frá loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn á sama tíma þar sem aðildarríki skuldbundu sig ekki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þvert á það sem vonir manna stóðu til um.
Við uppskárum ríkulega fyrir að sýna gott frumkvæði og við gleðjumst yfir því að jákvæðar fréttir berist til umheimsins frá Íslandi annað slagið. Reyndar teljum við almennt að ástæða sé til bjartsýni. Ísland býr nefnilega yfir gríðarlegum tækifærum til að láta að sér kveða, t.d. í vetnisrannsóknum. Við eigum möguleika á að verða fyrsta alvöru vetnissamfélagið í heimi ef við aðeins vinnum saman í átt að því markmiði.
Ford hefur sýnt okkur traust og veitt okkur tækifæri til að sýna hvað í okkur býr. Ford er ennfremur einn stóru bílaframleiðendanna sem hyggst bregðast við snögglega og draga úr losun með nýrri tækni. Fleiri framleiðendur munu vonandi fylgja í kjölfarið.
Við getum lagt okkar af mörkum svo hægt verði að breyta því hvernig við hugsum um bíla, og svo loks breyta því hvernig við notum þá. Bílaiðnaðurinn hefur þegar stigið skref sem kalla á öra þróun. Næsta skref krefst þess að bílaframleiðendur, olíufélög, raforkudreifendur og ríkisstjórnir leggist á eitt og byggi upp dreifingarkerfi fyrir vetni.
Í ljósi þessa hafa sjö stærstu bílasamsteypurnar, þar á meðal Ford, lýst því yfir að vetnisrafbílar væru tilbúnir fyrir neytendamarkað. Stefnt er að því að bílarnir fari í fjöldaframleiðslu jafnvel innan fimm ára.
Ford leggur mikla áherslu á þróun brunahreyfilsins á meðan við bíðum eftir því að vetnisrafbílarnir komi á markað og dreifikerfi komist á laggirnar. Þannig hefur Ford t.d. unnið að betri nýtingu eldsneytis, hannað hagkvæmari gírkassa, innleitt start/stop tækni í fleiri bíla, þróað léttari efni og ýtt undir notkun annarra orkugjafa en bensíns eða dísils. Allt getur þetta stuðlað að minni útblæstri og minni eyðslu.
Vetni er orkuberi líkt og rafgeymir. Hinsvegar henta vetnisrafbílar íslenskum aðstæðum einstaklega vel. Landið er ríkt af endurnýjanlegri orku en um leið erfitt yfirferðar og stórt. Því þurfa visthæfir bílar að vera öflugir og með langt akstursdrægi. Vetnisrafbílar sameina þetta tvennt á ákjósanlegan hátt.
Heimsþörfin á nýrri og visthæfri samgöngutækni er knýjandi. Bíllinn verður ódýrt og sveigjanlegt samgöngutæki næstu áratugina líkt og hann hefur verið síðustu 100 árin.
Fjöldaframleiddir visthæfir bílar gætu skipt sköpum fyrir efnahagsþróun Íslands enda búum við yfir einstakri auðlind - hreinni og endurnýjanlegri orku! Gangi þessi þróun eftir mun íslenska þjóðarbúið njóta góðs af með aukinni verðmætasköpum og gríðarlegum sparnaði á gjaldeyri, sem ella hefði farið í innflutt eldsneyti. Er þá ótalinn sá mikli ávinningur sem vetnisrafbílavæðing gæti fært jafnt mannfólki sem og náttúru Íslands.
Það er þessi hreina orka sem virkar sem mikið aðdráttarafl á þá sem vinna að þróun umhverfisvænni samgangna. Samstarf sem þetta er því afar mikilvægt þeim sem sjá fyrir sér nýja tækni framtíðarinnar.
Með því að taka af fullri alvöru þátt í verkefnum sem þessum getum við saman stigið visthæf skref og sýnt umheiminum hvers við erum megnug og verið fyrirmynd enn á ný.
![]() |
Ráðherra afhenti 10 vetnisrafbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Mánudagur, 25. janúar 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Skv. frétt mbl.is þá bendir allt til þess að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hafi aukist gríðarlega og er það vel og í samræmi við mína upplifun á síðasta ferðasumri.
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, vitnar til áætlunar Hagstofu Íslands og segir útlit fyrir að gjaldeyristekjur verði um 155 milljarðar í stað 109 milljarða á árinu á undan. Að teknu tilliti til gengis- og verðlagsáhrifa samsvarar þessi breyting liðlega 20% raunaukningu.
Og allt bendir til þess að þetta ár verði jafnvel enn betra og hvað rekstur Dollar Thrifty bílaeigunnar varðar þá eru bókanir ótrúlega sterkar. Mjög spennandi.
![]() |
Ferðaþjónustan skilaði 20% meiri gjaldeyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Mánudagur, 25. janúar 2010 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Europe lacks both the centralized fiscal system and the high labor mobility. (Yes, some workers move, but not nearly on the US scale)."
"Was the euro a mistake? There were benefits - but the costs are proving much higher than the optimists claimed. On balance, I still consider it the wrong move, but in a way that's irrelevant: it happened, it's not reversible, so Europe now has to find a way to make it work."
Á sama tíma horfum við á gríðarlega hraða aðlögun Íslendinga að nýjum raunveruleika þrátt fyrir að hafa lent í margföldu efnahagsáfalli miðað við granna okkar í ESB. Ástæðan er snörp hagræðing í atvinnulífi Íslendinga sökum gríðarlega sveigjanlegs vinnumarkaður sem flytur sig hratt úr innflutningi í útflutning með dyggri aðstoð íslensku krónunnar.
Þessar pælingar Krugmanns á bloggi sínu stemma algerlega við frétt þýsku fréttastofunnar þar sem segir;
að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins óttist að gjaldmiðilssamstarfið á evrusvæðinu kunni að hrynja saman vegna þess hve samkeppnisstaða ríkjanna 16, sem nota evru sem gjaldmiðil, er mismunandi.
Það er einmitt þessi mismunur á hagkerfum mismunandi landa sem menn óttast við upptöku evru hér á landi. Evran fylgir algerlega hagsmunum stóru þjóðanna innan ESB og þá sérstaklega stærsta efnahagsveldisins, Þýskalands. Hagkerfi okkar sveiflast nánast aldrei í sama takti og það þýska og því er líklegt að evran verði alltaf rangt skráð í samhengi við efnahagslega hagsmuni Íslendinga.
![]() |
Óttast að evran hrynji |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Sunnudagur, 24. janúar 2010 (breytt kl. 23:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Slúðurrannsóknir geta verið skemmtileg tómstundaiðja.
Sú saga hefur gengið ansi lengi að Bauhaus húsið sé fullt af notuðum bílum sem hafa verið teknir af fólki sem ekki gat greitt af bílalánum. Ég heyrði þessa sögu fyrst vorið 2009 og það nokkrum sinnum. Það gekk svo langt að blaðamaður á stóru dagblaði hringdi í mig og spurði mig hvort ég vissi til þess að þetta væri rétt.
Ég hafði nú ekki mikla trú á sögunni en sagði við blaðamanninn hvort ekki væri einfaldast að keyra þangað upp eftir og kíkja inn sem ég og gerði. Enginn þeirra sem bar söguna áfram virðist hafa gert það því húsið var auðvitað galtómt. Ekki eina skrúfu að sjá þarna inni - hvað þá heilu bílana.
Núna á föstudaginn kom til mín maður og bar upp þessa sögu og hafði áreiðanlegar heimildir því hann þekkti mennina sem störfuðu við það að keyra bílana upp í Bauhaus húsið. Forvitni mín var vakin aftur. Ég tók því smá rúnt í dag upp að Bauhaus húsinu.
Og viti menn. Engir bílar. Vegir slúðursins eru órannsakanlegir.
Bloggar | Sunnudagur, 24. janúar 2010 (breytt kl. 23:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Íslensk þjóð má alls ekki gefast upp undan þunga áróðursstríðsins og hótana um efnahagslegt svartol heldur verður að standa fast í lappirnar og segja NEI, þar til blæðir úr tungunni, við Icesve í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fer 6. mars.
Enginn dregur dul á það að á meðan Icesave er ekki í höfn þá þurfum við að herða sultarólina en það er gjaldið sem við erum tilbúin að greiða svo Icesave málið verði leyst þannig að framtið barna okkar verði betri.
Spurningin er:
Viljum við segja já fyrir skammtímaávinningin af því að losna við tímabundin óþægindi af Icesave og taka samt á okkur ofur-vaxtagreiðslur upp á 40 milljarða á ári eða viljum við freista þess að berjast gegn óréttlætinu sem felst í samningnum, segja NEI, í þeirri von að umheimurinn sjái óréttlætið og komi á sátt sem við getum sætt okkur við fyrir hönd framtíðar barna okkar.
Mitt svar er auðvitað: Nei við Icesave. Nei og aftur Nei þar til blæðir úr tungunni.
Í útvarpsþætti á Útvarpi Sögu í vikunni (miðvikudag 20. janúar) lenti ég í harðri umræðu við Jón Baldvin Hannibalsson og þáttarstjórnandann Höskuld Höskuldsson sem harðir héldu því fram að við ættum að borga Icesave því fyrri stjórnvöld væru búinn að samþykkja það.
Ég benti þeim góðfúslega á að hvort sem það væri rétt hjá þeim eða ekki (var reyndar ekki sammála þeim hvað það varðar) þá hefði þjóðin með áskorun sinni til forsetans einmitt verið að setja stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar og segja;
Stjórnvöld, fyrri og núverandi, gerðu mistök en við ætlum að gefa ykkur annað tækifæri. Hysjið upp um ykkur buxurnar, farið aftur á byrjunarreit, sættist við stjórnarandstöðuna, setjið ykkur samningsmarkmið sem tryggja hagsmuni Íslands og skipið fagmenn í nýja samninganefnd.
Þetta eru einföld og skýr skilaboð frá íslensku þjóðinni. Mér sýnist á öllu að stjórnvöld og stjórnarandstaða séu alveg að kveikja á perunni og ég er ekki frá því að Bretar, Hollendingar og ESB séu jafnvel búnir að átta sig. Íslenska þjóðin verður ekki knésett í málinu fyrr en í fulla hnefana.
![]() |
Erlent ríki kannar sáttagrundvöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Laugardagur, 23. janúar 2010 (breytt kl. 17:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Allar kannast við það á lífsleiðinni að hitta fólk sem getur ómögulega innleitt hugmyndir, jafnvel ábatasamar fyrir það sjálft, nema það eigi þær sjálft. Lausn þeirra sem starfa með þessu fólki er að bíta á jaxlinn og búa svo um hnútana að viðkomandi haldi að hann eigi hugmyndina. Og setja svo innleiðinguna í gang. Allir hagnast og umræddur getur baðað sig í sviðsljósinu í smá tíma. Small price to pay.
Þetta kom upp í hugann þegar ég las góða grein Hallgríms Helgasonar um Icesave, hvers vegna málið er í þeim hnút sem það er og mögulega lausn málsins. Nákvæmlega allt í greininni hefur löngu verið lagt til og sumt af tillögunum eru meira en árs gamlar og hafa verið í umræðunni svo mánuðum skiptir og margar þeirra má jafnvel finna hér á þessu bloggi og auðvitað víðar í samfélaginu.
Snilldin í grein Hallgríms er að hann er einmitt að láta líta út eins og Samfylkingin sé að fá þessar hugmyndir núna og þar sem sá flokkur er við völd þá er líklegra að þær verði að veruleika. Þetta er auðvitað ekki einskorðað við Samfylkingu heldur viðvarandi vandamál hjá fjórflokknum og á rætur að rekja til svokallaðrar sandkassapólitíkur þar sem línan er ekki hagsmunir Íslands heldur sérhagsmunir flokksins og næstu kosningar.
Þetta er því snilldarbrella hjá Hallgrími en endilega haldið þessu bloggi fyrir ykkur, lesendur góðir, því allar tillögurnar eru lyklar að lausn málsins og við viljum endilega að allir geti sameinast um þær.
Bloggar | Sunnudagur, 17. janúar 2010 (breytt kl. 14:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Jæja, þá er maður endanlega búinn að stökkva í djúpu laugina. Nú er ég ásamt Frosta Sigurjónssyni kominn með minn eiginn útvarpsþátt. Við ætlum að vera á Útvarpi Sögu FM 99,4 á morgun, laugardaginn 16. janúar kl. 12:45 til 14:00 og leita að rökum með eða á móti spurningunni ESB - nei eða já? Í þættinum á morgun verður áherslan á lýðræðið í ESB, þróun þess og stjórnskipulag.
Við fáum til okkar góða gesti, annar með ESb og hinn á móti ESB og auðvitað verðum við með getraun þar sem íslensk hönnun frá Dogma verður í boði fyrir 5 heppna og áhugsama hlustendur. Nú er um að gera að hlusta og hreppa velheppnaða, íslenska hönnun, frá Dogma og gerast aðdáandi á Fésbókinni.
Nánar um þáttinn á Fésbók þáttarinns ESB - Nei eða Já? sem er líklega ein stærsta spurning Íslandssögunnar.
![]() |
Betra en að deyja úr þorsta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Föstudagur, 15. janúar 2010 (breytt kl. 23:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í mjög athyglisverðri frétt á RÚV í gær, 14. janúar, er viðtal við írskan hagfræðing sem bendir á að Írar séu nú í svipaðri klípu og Íslendingar þrátt fyrir evru en hafi ekki þá kosti sem Íslendingar hafi með sjáflstæðum gjaldmiðli. Þeir hafi lent í alvarlegu hruni þrátt fyrir evru en súpa nú seiðið af ókostum evru sem fylgir efnahagssveilflum stóru landanna í ESB andstætt þörfum þeirra litlu.
Einnig segir hann að írsk stjórnvöld hafið tekið þann pól í hæðina í miðju hruninu að tryggja bæði allar innstæður í bönkum og aðrar skuldbindingar banka gagnvart lánadrottnum. Íslendingar hafi farið þá leið að láta kerfið falla og semja síðan við lánadrottna um afskriftir. Þetta þýði að Írar hafi skuldsett sig langt inn í framtíðina - meira en íslendingar - þrátt fyrir Icesave.
En hagfræðingurinn segir einnig að Írar horfi nú mjög til úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar og niðurstöðu Icesave í kjölfar hennar því þeir eigi þar möguleika á að losna undan þeim drápsklyfjum sem írsk stjórnvöld settu á írskan almenning.
![]() |
Þverpólitísk nefnd um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Föstudagur, 15. janúar 2010 (breytt kl. 22:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðin hefur undanfarna mánuði verið að kalla eftir samstöðu og blöskrað sandkassaleikur ráðamanna. Og samstöðu fékk þjóðin sem aldrei fyrr þegar meira en 60 þúsund Íslendingar skrifuðu undir áskorun til forseta um að vísa Icesave lögunum til þjóðarinnar. Nú er ábyrgðin okkar og nú skulum við sko sannarlega standa undir henni. Forsetinn með aðstoð þjóðarinnar færði ríkisstjórninni einstakt tækifæri á silfurfati til að byrja upp á nýtt með Icesave.
Mjög mikilvægt í þessu samhengi að halda til streitu þjóðaratkvæðagreiðslunni en á sama tíma skipa harðsnúna samninganefnd. Þjóðaratkvæðagreiðslan er púðrið í lýðræðisvopnið, togvíraklippur samtímans, okkar sterkasta vopn i baráttunni gegn Bretum og Hollendingum. Íslendingar þurfa nú að standa í lappirnar, sýna þjóðarkjark og allir sem einn segja NEI við Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Stjórn og stjórnarandstaða eiga að geta sameinast um þetta en þá er mikilvægt að allir flokkar setji sérhagsmuni til hliðar. Það er allra hagur að þjóðin SEGI NEI og því má ríkisstjórnin alls ekki berjast gegn þjóðinni og sjálfstæðismenn mega alls ekki berjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Setjið langtímahagsmuni þjóðarinnar framar öllum öðrum hagsmunum. Icesave málið er of stórt til að það megi verða fórnarlamb sérhagsmuna flokkanna.
![]() |
Joly harðorð í garð Hollendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Föstudagur, 8. janúar 2010 (breytt kl. 00:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Um bloggið
Vangaveltur Egils
Eldri færslur
2015
2012
2011
2010
2009
2008
2007
2006
Síður
- Lýðræðislegar umbætur á íslenska lýðveldinu
- Andsvar Brimborgar til borgarráðs 5. janúar 2009
- Erindi til Alþingis um etanól bíla - mars 2007
- Erindi til Alþingis um etanól bíla - Nóv. 2006
- Stöðugleikastýrikerfi í bílum bjargar mörgum mannslífum
- 3. Spurningar um menntamál
- 2. Spurningar um umhverfismál
- 1. Spurningar um samgöngu- og umferðaröryggismál
- Björt framtíð bílgreinarinnar og samfélagsleg ábyrgð
- Neytendur eru skynsamir
- [ Fleiri fastar síður ]
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar