Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
Aðdragandi málsins í stuttu máli er sá að nokkrir úr eigendahópi Íslands hf. fengu opna lánalínu hjá hluta eigenda ESB hf. án samþykkis stjórnar Íslands hf. en framkvæmdastjórnin sem þá sat, hluti stjórnar og nokkrir af lykilstjórnendum félagsins vissu þó af málinu en aðhöfðust ekki. Það leiddi til þess að framkvæmdastjórnin öll sagði af sér í janúar 2009 og á hluthafafundi 25. apríl 2009 var kosin ný stjórn sem skipaði nýja framkvæmdastjórn og nokkrir af lykilstjórnendum voru látnir fjúka.
Niðurstaða eigendafundar í gær er afgerandi og höfnuðu 60% eigenda félagsins samningnum og vilja að dómstólar útkljái málið þar sem vafi leikur á um lögmæti kröfunnar að baki samningnum enda rann féð ekki til félagsins heldur beint í vasa fámenns hóps eigenda. Nokkrar eignir hafa fundist sem eiga að ganga upp í kröfuna og vill meirihluti eigenda að þar verði látið við sitja enda bendi allt til þess að þær eignir dugi langt upp í höfuðstól kröfunnar og því óþarfi að eigendur taki á sig sjálfskuldarábyrgð fyrir hugsanlegum mismun og vöxtum af kröfunni.
Núverandi forstjóri Íslands hf. var ósátt við niðurstöðu eigendafundarins og sagði í sjónvarpsþætti í kjölfar hans að það væri óráð að eigendur félagsins gætu yfirleitt haft eitthvað um stærri samninga félagsins og fjárhagsskuldbindingar að segja. Urðu margir eigendur hvumsa yfir þessum ummælum enda alvanalegt að stærri skuldbindingar félaga séu lagðar fyrir eigendur og m.a. alþekkt að stjórnir og framkvæmdastjórnir hafi staðið í sameiningarviðræðum svo mánuðum skiptir sem síðar er hafnað af hluthöfum. Óttast margir eigendur að orð forstjórans megi túlka þannig að hún vilji ekki heldur leggja væntanlegan samrunasamning við ESB hf. undir eigendur þegar niðurstaða samningalotunnar liggur fyrir.
Ekki hefur ríkt eining innan framkvæmdastjórnar Íslands hf. um það hvort sameinast eigi ESB hf. en það félag hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og er umsvifamikið á flestum mörkuðum um allan heim. Þó varð niðurstaðan að hefja samningaviðræður en framkvæmdastjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarsviðs og framkvæmdastjóri innviða, innri endurskoðunar og eftirlits hafa báðir lýst sig andsnúna samruna.
Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslands hf. var einnig ósáttur við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í gær. Hann ásamt æðstu stjórnendum félagsins hafði borið hitann og þungann af samningaviðræðunum og lagði þennan þriðja samning um sjálfskuldarábyrgð eigenda fyrir stjórnina sem samþykkti með 2/3 hluta atkvæða.
Þó var fyrirvari í samþykktinni þar sem samþykktir félagsins kveða á um að stjórnarformaðurinn tekur ekki þátt í umræðum stjórnar um einstök mál en fær þau öll inn á borð til sín og þarf að samþykkja þau eða vísa til eigenda. Þegar til kom neitaði stjórnarformaðurinn að skrifa undir og óskaði eftir því að eigendur félagsins tækju sjálfir af skarið með höfnun eða samþykki.
Í ljósi þeirra áfalla sem félagið hefur lent í undanfarin ár þá ákvað stjórn félagsins fyrir nokkru að láta endurskoða stefnu þess og stjórnskipulag eftir mikinn þrýsting frá eigendum. Skipuð var undirbúningsnefnd sem vann tillögur að nýrri stefnu og skipulagi og að lokum skipaði stjórnin 25 einstaklinga úr hópi eigenda til að semja drög að nýrri stefnu og nýju skipulagi en eigendafundur í nóvember 2010 hafði kosið þessa einstaklinga til starfsins. Tillögur ráðsins er að vænta í sumar.
Þrátt fyrir óvissu ríkir bjartsýni meðal eigenda Íslands hf. enda þeir oftar en ekki þurft að sigla ólgusjó en náð höfn að lokum. Von eigenda er að ný stefna og nýtt skipulag dragi úr þeim hroka sem einkennt hefur þá elítu sem skipst hefur á um völdin í félaginu undanfarna áratugi og að í framtíðinni þyki það eðlilegt og sjálfsagt að bera mál undir eigendur.
![]() |
Afgerandi nei við Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Sunnudagur, 10. apríl 2011 (breytt kl. 19:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ísland eins og aðrar þjóðir þarf að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti sem í daglegu tali kallast bensín eða dísil. Hagkvæmasta leiðin að því markmiði er þríþætt:
- Auka sparneytni bíla með sprengihreyfli (auka nýtni, létta bíla, o.s.frv)
- Auka jafnt og þétt rafvæðingu bíla þ.e. rafmótorar og rafhlöður
- Auka notkun annarra vökvaorkugjafa í stað bensíns eða dísils fyrir bíla með sprengihreyfil
Bílaheimurinn hefur valið þessa þríþættu leið og svo vill til að þessi leið er afar hentug fyrir Ísland.
Það er ástæða fyrir því að jarðefnaeldsneyti er notað fyrir bíla. Ástæðan er í megindráttum sú að það eldsneyti er á vökvaformi og því auðvelt að dreifa því til neytenda. Í öðru lagi er verð þess miðað við orkuinnihald lágt í samanburði við aðra orkugjafa eða orkubera. Því er ljóst að nýir orkugjafar eða orkuberar þurfa að standast fyrrgreind viðmið um dreifanleika og verð áður en þeir geta átt möguleika á að ýta bensíni eða dísil út af borðinu.
Það er aðeins ein leið til að gera þetta á hagkvæman hátt og hún er sú að rafvæða bílaflotann hægt og sígandi og á sama tíma innleiða nýja orkubera á vökvaformi t.d. líf-etanól, líf-dísil og metanól draga þannig á tvennan hátt úr notkun á jarðefnaeldsneyti.
Þessi leið er hagkvæm og raunhæf því hún gerir okkur kleift að byrja strax á verkefninu og um leið nýtir hún núverandi bíltækni og dreifitækni en innleiðir hægt og sígandi nýja tækni. Dreifikerfi raforku og dreifikerfi fyrir vökvaeldsneyti er þegar til staðar. Sprengihreyflar bíla sem í dag nota bensín eða dísil geta á auðveldan hátt nýtt vökvaeldsneyti eins og líf-etanól, líf-dísil eða metanól. Rafvæðing bílanna felst síðan í að draga úr eldsneytisnotkun með því að auka jafnt og þétt vægi raforku t.d. með rafmótor og rafhlöðum.
Þessi þróun hófst að einhverju ráði um síðustu aldamót og hefur verið að mótast á síðustu 10 árum. Með hækkandi eldsneytisverði og aukinni losun koltvísýrings í andrúmsloftið hefur þrýstingur aukist á bílaframleiðendur að finna lausnir og nú hefur leiðin verið mörkuð. Tugir bílgerða munu koma á markað á næstu misserum sem fylgja fyrrgreindri leið og eru ýmist kallaðir tvinnbílar eða tengiltvinnbílar og að auki er að aukast úrval hreinna rafbíla. Einu nafni má kalla þessar þrjár gerðir bíla rafhlöðubíla.
Tvinnbílar og tengiltvinnbílar eru í grunninn eins að því leiti að þeir hafa sprengihreyfil sem getur gengið fyrir nokkrum tegundum af vökvaorkugjöfum t.d. bensíni, dísil, líf-etanóli, líf-dísil eða metanóli. Að auki eru þeir búnir rafmótor og rafhlöðum og nýta t.d. hemlabúnað til að hlaða rafhlöður. Munurinn liggur í að tengiltvinnbílnum má stinga í samband og hlaða í bílskúrnum sem ekki er hægt að gera við tvinnbílinn. Hreina rafbíla er einnig hægt að hlaða.
Mikilvægt er að bjóða bílkaupendum upp á val. Tengiltvinnbílarnir verða dýrari en tvinnbílarnir og rafbílarnir enn dýrari og því verða allir þessir kostir í boði næstu 10 árin. En þegar á líður munu tengiltvinnbílar sækja á með áframhaldandi þróun tækninnar og verða ódýrari á kostnað tvinnbílanna en lengra er í að hreinir rafbílar verði ráðandi. Vörubílar og strætisvangar munu einnig geta nýtt tvinn- og tengiltvinntæknina og eru meðal annars fyrstu strætisvagnarnir komnir á markað.
Það eru því spennandi hlutir framundan í bílgreininni og má sjá fyrstu vísbendingar um þessa skemmtilegu þróun strax á þessu ári og því næsta.
Bloggar | Föstudagur, 8. apríl 2011 (breytt kl. 18:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Olíuþjóðin Norðmenn var að kaupa 100 raf-sendibíla af Ford. Fyrstir Evrópuþjóða. Gott visthæft skref.
Rafhlöðubílar er augljós kostur fyrir Íslendinga til framtíðar svo auka megi vægi endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Iðnaðarráðherra hefur unnið að stefnu um orkuskipti í samgöngum. Gott visthæft skref hjá henni. Fjármálaráðherra lagði fram frumvarp fyrir síðustu áramót um mikla kerfisbreytingu á vörugjöldum fyrir ökutæki sem var samþykkt af Alþingi eftir ítarlega umfjöllun. Lögin munu stuðla að aukningu rafhlöðubíla (aðallega tvinn- og tengiltvinnbíla) og sparneytnari bensín og dísilbíla. Líka gott visthæft skref hjá honum.
Því kemur á óvart að íslensk stjórnvöld skuli láta undir höfuð leggjast að lagfæra galla í fyrrgreindum, annars ágætum, lögum um vörugjöld á bíla og leggja þannig stein í götu eins af fyrstu rafhlöðubílunum sem fáanlegir eru á almennum markaði. Slæmt óvisthæft skref.
Lögin kveða m.a. á um að bílar sem losa minna en 80 grömm af koltvísýringi per ekinn kílómetra skuli ekki bera nein vörugjöld og nær það ákvæði m.a. yfir rafbíla. En vegna mistaka í útfærslu laganna þá gildir þetta ákvæði eingöngu um fólksbíla en ekki um sendibíla sem ganga fyrir rafmagni. Samt losa þeir engan koltvísýring. Sendibílar eru einmitt sú gerð bíla sem líklegust er til að henta best sem rafbíll á meðan þróun rafhlöðutækninnar er enn á frumstigi sökum þess að þeir eru mest notaðir innanbæjar, akstursvegalengdir stuttar og aðgengi að endurhleðslu rafhlaðna auðvelt.
Nú geta mönnum alltaf orðið á mistök og því spyr einhver hvers vegna ekki hafi verið gerð athugasemd við þetta þegar frumvarpið var í meðförum þingsins. En það gerði ég einmitt og benti efnahags- og skattanefnd ítrekað á mistökin, með tölvupósti og símtölum, áður en frumvarpið var samþykkt á Alþingi. Án árangurs.
Það grátlegasta er að lagfæringin hefði líklega tekið 10 mínútur og væri ekki mikið lengri en ein, stutt setning og hefði sáralítil áhrif á tekjur ríkissjóðs en væri táknræn fyrir raunverulegan vilja stjórnvalda til að auka innflutning rafhlöðubíla og myndi auka líkurnar á innflutningi eins af fyrstu fjöldaframleiddu rafbílunum. Þar vísa ég í raf-sendibílinn Ford Transit Connect EV sem Norðmenn festu kaup á í síðustu viku. Við Íslendingar eigum að vera í farabroddi þjóða heims um rafhlöðuvæðingu bíla.
Ný tækni er ávallt dýr í upphafi. Þróun farsímans er gott dæmi en þeir voru dýrir og fágætir en eru almannaeign í dag. Með áframhaldandi þróun nýrrar tækni og aukins fjölda framleiddra eininga þá lækkar verðið. Af þessari ástæðu hafa stjórnvöld um allan heim ákveðið að styðja við sölu rafhlöðubíla og jafnvel greiða með rafbílum til að flýta enn frekar fyrir þróuninni. Bandaríkjamenn leggja engin vörugjöld á bíla og stjórnvöld þar endurgreiða kaupendum rafhlöðubíla að auki 7500 dollara eða 860 þúsund krónur per bíl eftir að kaupin hafa verið staðfest.
Obama forseti Bandaríkanna lýsti yfir í vikunni að hann stefndi að því að 80% af orku landsins væri af endurnýjanlegum uppruna fyrir árið 2035 og sem skref í þá átt hefur hann ákveðið að frá og með árinu 2015 muni stofnanir á vegum stjórnvalda í Bandaríkjunum aðeins kaupa bíla sem ganga að einhverju eða öllu leiti fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Það er áhugavert að Obama tiltekur ekki ákveðna tækni heldur mótar stefnu - setur almennar kröfur - um endurnýjanlega orkugjafa og síðan lætur hann markaðinn um að koma með tæknilausnirnar. Íslensk stjórnvöld mættu taka það sér til fyrirmyndar.
Rafhlöðuvæðing bílaflotans mun taka tíma og það er óraunsætt að halda öðru fram. Snemma árs 2009 komu fram hugmyndir um að hægt væri að rafbílavæða helming bílaflota Íslendinga fyrir lok árs 2012. Það hefði þýtt innflutning á 120 þúsund rafbílum á örfáum árum og framkvæmdin hefði kostað á milli 2 og 3 þúsund milljarða. Síðan þá hafa verið fluttir inn þrír rafbílar. Óraunhæf markmið skila ekki árangri.
Raunhæft er að ætla að með skýrri stefnu og skilvirkri framkvæmd væri 2% bílaflota Íslendinga búinn rafhlöðum árið 2020 að einhverju eða öllu leiti þ.e. tvinnbílar, tengiltvinnbílar og rafbílar. Það myndi þýða um 4800 bílar eða um 480 bílar á ári. Mun minna fyrstu árin og síðan vaxandi til ársins 2020.
Íslendingar búa við forréttindi því í samanburði við Bandaríkin þá er uppruni orku Íslendinga nú þegar 80% frá endurnýjanlegum auðlindum. En við getum gert betur en þá þarf að standa vel að verki, hafa skýra stefnu og markmið, taka raunhæf, visthæf, skref og laga fljótt og vel agnúa á framkvæmd stefnunnar.
Bloggar | Föstudagur, 1. apríl 2011 (breytt 3.4.2011 kl. 10:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Vangaveltur Egils
Eldri færslur
2015
2012
2011
2010
2009
2008
2007
2006
Síður
- Lýðræðislegar umbætur á íslenska lýðveldinu
- Andsvar Brimborgar til borgarráðs 5. janúar 2009
- Erindi til Alþingis um etanól bíla - mars 2007
- Erindi til Alþingis um etanól bíla - Nóv. 2006
- Stöðugleikastýrikerfi í bílum bjargar mörgum mannslífum
- 3. Spurningar um menntamál
- 2. Spurningar um umhverfismál
- 1. Spurningar um samgöngu- og umferðaröryggismál
- Björt framtíð bílgreinarinnar og samfélagsleg ábyrgð
- Neytendur eru skynsamir
- [ Fleiri fastar síður ]
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar